139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að nefna að mér finnst skjóta svolítið skökku við þegar meiri hlutinn í þinginu beitir minni hlutann í rauninni ofríki og lætur okkur klára þetta mál um miðja nótt, vill keyra það í gegn, þá séu á lokasprettinum forsprakkar stjórnarliðsins hoppandi af illsku í hliðarsölum yfir því að menn skuli yfir höfuð ræða málið. Þeim var algerlega í sjálfsvald sett að klára þetta við skikkanlegar aðstæður.

Í lokin vil ég í stuttu máli ítreka um hvað valið snýst. Það hefur nefnilega komið í ljós að valið snýst ekki um það sem var haldið fram í upphafi í umræðunni um Icesave-samninga 1 og 2, þ.e. hvort við ættum að fallast á þessar ólögvörðu kröfur til að styrkja gengi krónunnar eða efla lánstraust Íslands, eins órökréttur og sá málflutningur var. Í millitíðinni hefur nefnilega sannast það sem allir áttu að geta séð fyrir; að auka skuldir í erlendri mynt er ekki til þess fallið að styrkja gengi krónunnar. Og að draga úr skuldum í erlendri mynt styrkir gengið miklu frekar. Á sama hátt og jafnvel enn augljósari bætir það ekki lánstraust að auka skuldir. Að sjálfsögðu þvert á móti.

Það hefur heldur betur sannast á síðustu tveimur árum, ekki hvað síst í mars í fyrra eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar var fellt með afgerandi hætti. Við munum öll eftir hræðsluáróðrinum um hvað mundi gerast ef það yrði gert. Efnahagsleg ísöld, sagði Samfylkingin og ýmsar kenningar voru uppi um að hér mundi hreinlega allt hrynja. En hvað gerðist? Efnahagur Íslands fór að styrkjast í sessi miðað við alla helstu mælikvarða, ekki hvað síst varðandi lánshæfi. Raunverulegt lánshæfi er mælt í svokölluðu skuldatryggingarálagi sem er bara viðskipti á markaði með það hversu mikið traust menn bera til lántakenda. Þau viðskipti, í framhaldi af þjóðaratkvæðagreiðslunni og alveg fram á þennan dag, hafa sýnt það sem átti auðvitað að vera augljóst; minni skuldir þýða meira lánstraust. Þetta mál hefur ekki snúist um það heldur hversu langt eigi að ganga í því að reyna að gleðja stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi í von um að fá eitthvað í staðinn einhvers staðar annars staðar og aldrei hefur verið almennilega útskýrt hvað á að vera.

Enn augljósari er sá tvískinnungur sem birtist í málflutningi stuðningsmanna frumvarpsins þegar til þess er litið að fjölmargir umsagnaraðilar um frumvarpið hafa bent á að ef það verður samþykkt þurfi að viðhalda gjaldeyrishöftum áfram, menn losni ekki við þau. Menn ætla að bæta á sig skuldum og verða að viðhalda gjaldeyrishöftum og halda því síðan fram að það muni bæta stöðu Íslands og auka fjárfestingu sem er náttúrlega fullkomlega órökrétt.

Ástæðan fyrir því að svo skelfilega illa gengur að byggja upp efnahaginn er stefna ríkisstjórnarinnar á ýmsum öðrum sviðum, til að mynda stefna sem lýsir sér nánast í fráhvarfi frá grundvallarreglum réttarríkisins þar sem eignarréttinum er allt í einu stefnt í tvísýnu, svo ekki sé minnst á skattstefnu ríkisstjórnarinnar þar sem sífellt hærri skattar eru boðaðir. Eins og hæstv. fjármálaráðherra orðaði það eitt sinn: „you ain't seen nothing yet“. Ofan á þetta bætast gjaldeyrishöftin sem menn ætla að viðhalda vegna nýrra Icesave-samninga. Það er því ekki svo að við séum að ákveða hvort við eigum að fallast á þessar ólögvörðu kröfur til að koma af stað fjárfestingu heldur þvert á móti. Ef við föllumst á þetta er fest í sessi veruleg hindrun fyrir efnahagslegri uppbyggingu.

Spurningin snýst ekki um það. Hún snýst um eitthvað allt annað sem ekki hefur verið útskýrt af hálfu talsmanna þessa samnings. Aðalatriðið í málinu er að ef við tökum ákvörðun út frá lögum annars vegar og rökum hins vegar höfum við ekkert að óttast, hvorki efnahagslega né að öðru leyti. Er ekki einmitt hlutverk alþingismanna að taka ákvarðanir út frá lögum og rökum?