139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að gera alvarlegar athugasemdir við fundarstjórn forseta. Forseti hefur upp á sitt eindæmi ákveðið að breyta venjubundinni dagskrá þingsins með því að flýta fundi til kl. 13.30 og taka þar með hálftíma af venjubundnum fundartíma þingflokkanna a.m.k. án samráðs við þingmenn Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar.

Í gær var óskað eftir lengri ræðutíma til að ræða þetta stóra mál. Ekki var hægt að verða við því vegna þess að það hafði ekki verið rætt á þingflokksfundi eða á fundi þingflokksformanna með forseta. Nú ákveður forseti hins vegar upp á sitt eindæmi að breyta dagskránni án þess að ræða við sömu aðila. Til hvers er það? Það er til þess að einn þingmaður stjórnarflokkanna geti farið til útlanda, vissulega til að sinna brýnu erindi á vegum stjórnvalda en að gera það án samráðs er algerlega ólíðandi.

Svo virðist sem forseti Alþingis sé genginn í lið með þeim sem eru á harðahlaupum frá þjóðinni sem er núna inni á kjósum.is að skrá nöfn sín þar.