139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég verð að taka undir með þingmönnum sem hér hafa mælt á undan mér. Mér er fyrirmunað að skilja þessi vinnubrögð, af hverju taka þarf þetta mál út í svona miklu ósætti. Það er ekkert sem hastar nema undirskriftirnar sem nú hrúgast inn á kjósum.is ýti við mönnum. Nærri 32 þúsund einstaklingar hafa skráð sig sem undir öllum eðlilegum kringumstæðum og miðað við þau fordæmi sem við höfum fyrir okkur varðandi fjölmiðlalögin þýðir að gjá er komin á milli þings og þjóðar.

Ég krefst þess að hæstv. forseti útskýri af hverju þurfti að flýta þessu svona mikið og taka af okkur þennan hálftíma til að þingflokkarnir gætu rætt saman um það mikilvæga mál sem við erum nú að fara að greiða atkvæði um.