139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Sú samningalota sem skilaði þeim samningum sem við greiðum atkvæði um er fyrsta samningalotan vegna Icesave-deilunnar þar sem við Íslendingar komum fram sem fullvalda þjóð og kröfðumst þess af viðsemjendum okkar að þeir mættu okkur við lausn á deilunni og það birtist í samningunum með mjög áþreifanlegum hætti. Til samanburðar er sú uppgjöf sem ríkisstjórnin er ábyrg fyrir í fyrri samningunum tveimur.

Þeir sem hafa mælt á þann veg í þessari umræðu að þetta mál sé til vitnis um að við Íslendingar ætlum að gera skuldir einkaaðila að opinberum skuldum hafa ekki séð hið stóra samhengi hlutanna vegna þess að Ísland er einmitt fyrirmynd þjóða í því að hafa ekki tekið skuldir bankakerfisins og gert að opinberum skuldum. Það hafa viðmælendur okkar í þessu máli hins vegar báðir gert og þjóðir um alla Evrópu, (Forseti hringir.) sömuleiðis vestan hafs. Ísland er einmitt fyrirmynd annarra þjóða í því að skilja skuldir bankanna eftir í bönkunum. Icesave-málið er allt annars eðlis en sú umræða í heildina snýst um. Ég mæli með því að við ljúkum þeim ágreiningi sem uppi hefur verið með því að styðja þann samning sem hér eru greidd atkvæði um.