139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum komin að lokaafgreiðslu þessa vandræðamáls sem Icesave-málið hefur verið allt frá því að hæstv. ríkisstjórn tók það fyrst í fangið. Vinnubrögðin hafa verið með ólíkindum, málið hefur frá upphafi verið hjúpað dulúð og pukri og við höfum ekki fengið svör við mörgum áleitnum spurningum á mörgum stigum þess.

Með þessum samningum, ef þeir verða samþykktir hér, er verið að leggja tugi eða jafnvel hundruð milljarða kr. á herðar íslenskrar þjóðar. Staðreyndin er sú að Íslendingar munu einir bera alla efnahagslega áhættu af samningunum, ekki Bretar og ekki Hollendingar. Þess vegna get ég ekki stutt samningana, engan veginn, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Þetta er ekki einkamál okkar Íslendinga og það er ekki sanngjarnt að 300 þúsund manna þjóð (Forseti hringir.) beri ein alla efnahagslega áhættu vegna þessara samninga.