139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við byrjum á því að greiða atkvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort þingið ætli að sjá sóma sinn í að vísa þessu stóra máli til þjóðarinnar og hún fái að greiða atkvæði aftur um það eins og hún gerði með eftirminnilegum hætti fyrir rúmu ári síðan. Ég trúi því ekki, frú forseti, að þingmenn, ekki síst þeir sem tala um aukið lýðræði í ræðustól og annars staðar og vilja að þjóðin taki meiri þátt í störfum Alþingis, muni leggjast gegn tillögunum sem hér verða bornar upp. Þingmenn hljóta að fylkja sér að baki því að þjóðin fái að greiða atkvæði líkt og þær þúsundir sem hafa skráð sig á kjósum.is.

Frú forseti. Við erum löngu búin að heyra nóg af hræðsluáróðri hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Engin af þeim hrakspám sem þetta ágæta fólk hefur farið með í ræðustól hefur ræst. (Forseti hringir.) Stöndum nú saman, þingmenn góðir, og felum þjóðinni það sem hún hefur óskað eftir.