139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:50]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við hefjum þennan viðburð á atkvæðagreiðslu um tvær breytingartillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu. Að mínu mati er stigsmunur á þeim en ekki eðlismunur. Við í Hreyfingunni munum hins vegar í nafni þjóðarinnar að sjálfsögðu styðja báðar tillögurnar. Spuni hefur verið settur í gang gegn þeim af hálfu stjórnarliða um að þær séu ekki tækar og muni ekki ganga upp. Það er að sjálfsögðu alrangt.

Mig langar að minna á að afstaðan til þjóðaratkvæðagreiðslunnar berar jafnframt afstöðu allra þingmanna til skattahækkana á almenning langt inn í framtíðina vegna þess að þetta verður eingöngu greitt með hærri sköttum. Ég leyfi mér að sjá fyrir mér að þingmenn sem greiða atkvæði gegn þjóðaratkvæðagreiðslu muni í framtíðinni ekki voga sér að tala gegn skattahækkunum því að hér er skrifað upp á skattahækkanir langt inn í framtíðina.

Varðandi það sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan ætlar hún að enda vegferð (Forseti hringir.) þessa máls á óheilindum eins og það hófst. Lee C. Buchheit hefur sagt opinberlega að hann telji að (Forseti hringir.) Ísland eigi ekki að greiða þessa skuld. Hann náði hins vegar samningum vegna þess að hann var ráðinn til að ná samningum. Það skal hafa satt sem sannara reynist, hæstv. forsætisráðherra.