139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Allt líf okkar er undirorpið óvissu. Áhætta fylgir öllum ákvörðunum okkar. Ég veit að þegar ég stíg upp í bíl að morgni og ek til vinnu eru fyrir hendi líkur á því að keyrt verði á mig og ég örkumlist. En líkurnar eru hverfandi og því er ég tilbúinn til að taka áhættuna. Það dugar ekki að liggja heima með sæng breidda yfir haus, hræddur við allt og alla, það er ekkert líf.

Eðli máls samkvæmt ríkir óvissa um forsendur samningsins og því fylgir honum áhætta. Þetta veit ég en þrátt fyrir það er ég tilbúinn til að samþykkja hann. Áhættan er ásættanleg að mínu mati. Sumir segja að samningurinn sé þvingaður þar sem hann eigi sér ekki lagastoð, sumir halda því jafnvel fram að þeir hafi meira siðferðisþrek en ég þar sem þeir hafni samningnum. Um það vil ég segja: Samningurinn er gerður á jafnréttisgrundvelli af þremur frjálsum og fullvalda þjóðum. (Forseti hringir.) Í samningnum felst engin þvingun. (Forseti hringir.) Samningurinn lýsir hins vegar vilja til að halda áfram, hann lýsir þrá eftir að koma undan sænginni.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur gesti á þingpöllum til að hafa hljóð á meðan þingfundur stendur yfir.)