139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:07]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í krafti ákvæðis í stjórnarskrá lagði forseti Íslands í fyrra ákvörðun um Icesave-málið í vald þjóðarinnar. Þegar einu sinni er búið að vísa tilteknu álitaefni þangað til ákvörðunar þá kemur fram bæði sjálfsögð og lýðræðisleg krafa um að þjóðin hafi síðasta orðið um málið.

Það er engin mótsögn í því að styðja tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu þótt þingmenn hafi lýst yfir stuðningi við það samkomulag sem fyrir liggur. Þeir geta staðið við þá afstöðu en jafnframt tjáð sig reiðubúna að styðja þjóðaratkvæði þannig að þjóðin sjálf hafi síðasta orðið um málið og geti samþykkt eða synjað því samkomulagi sem fyrir liggur. Þeir sömu þingmenn munu þá væntanlega kynna þjóð sinni enn frekar á hvaða röksemdum afstaða þeirra byggir í aðdraganda slíkrar atkvæðagreiðslu. Á hvorn veg sem sú ákvörðun færi yrði ekki um hana deilt eftir það og það skiptir máli þegar horft er til framtíðar. Ég segi já.