139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Hér eru greidd atkvæði um það hvort Icesave-samninginn svokallaða eigi að senda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal mun flytja sambærilega eða svipaða tillögu á eftir og ég mun taka sömu afstöðu til þessara tveggja tillagna. Mér finnst sjálfsagt að vísa þessu máli til þjóðarinnar og ég mun því styðja báðar tillögurnar.

Sérstaða þessa máls er algjör. Fá mál ef einhver hafa fengið meiri umfjöllun meðal okkar á þinginu eða meðal manna úti í samfélaginu. Þjóðin þekkir þetta mál út í hörgul og ég treysti henni vel til að kynna sér samninginn og taka upplýsta afstöðu til hans þegar niðurstaða liggur fyrir. Það er ekki síst vegna sterkrar afstöðu íslensku þjóðarinnar sem við erum komin á þennan stað. Með ákvörðun minni um að styðja þetta er ég ekki á neinn hátt að kasta ábyrgð af mínum herðum yfir á herðar þjóðarinnar. Ég mun taka afstöðu til samninganna eins og ég tek (Forseti hringir.) afstöðu til þessara tillagna. Ég segi já.