139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:22]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst ekki um venjuleg skuldaskil eða fjárlög einhvers árs eins og þingmenn hafa reynt að skýla sér á bak við. Þetta snýst um það að verið er að gefa út opinn tékka til breskra og hollenskra stjórnvalda áratugi fram í tímann, tékka sem enginn veit hver endanleg upphæð verður á en mun lenda á íslenskum skattborgurum til ársins 2046 ef þörf krefur. (Gripið fram í.) Þannig er samningurinn upp settur og það á ekki að leyfa honum að fara í gegn án þess að þjóðin sé spurð að því. Alls ekki. Annað er algerlega ófært.

Ég fagna stuðningi Sjálfstæðisflokksins innilega við þessa meðferð og ég skora á þá sem hér eru á eftir mér í stafrófinu, sérstaklega þá þar sem fyrsti stafur í nafni er Ögmundur, Össur og Þráinn, að sýna nú lýðræðislegan vilja sinn í verki og hafa þann kjark sem þarf til að treysta þjóðinni fyrir (Forseti hringir.) þessu máli. Ég segi já.