139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:26]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þjóðaratkvæðagreiðslur gegna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki. Fyrir ári síðan var mikill ágreiningur í samfélaginu um þá niðurstöðu sem Alþingi komst þá að í þessu máli. Talsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu þá lögðu áherslu á að hún mundi styrkja samningsstöðu okkar og gera okkur auðveldara að ná samningum.

Þjóðaratkvæðagreiðslan í byrjun mars hafði áhrif til að styrkja samningsstöðu okkar og þjappaði forustuliði allra stjórnmálaflokka saman um að leita bestu mögulegu niðurstöðu fyrir okkur í samningum. Nú er sú niðurstaða fengin og samdóma álit færustu sérfræðinga að ekki verði lengra komist í samningum. Víðtækur stuðningur er við málið innan þings jafnt meðal þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu. Þingmenn Samfylkingarinnar munu því ekki styðja neinar tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu um þennan nýja samning. Ég segi nei.