139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við lifum á tíma mikilla breytinga og við sjáum að úti í samfélaginu er vaxandi krafa um breytt skipulag. Það er vaxandi krafa um að þjóðin fái í auknum mæli að koma að stjórnun landsins með beinum þjóðaratkvæðagreiðslum.

Fyrir rúmu ári síðan stóð ég í þessum stól og hvatti til þess að þingið samþykkti að setja þáverandi Icesave-samning, Icesave 2, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var hins vegar ekki gert en forsetinn vísaði málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar sýndi þjóðin að hún er fyllilega fær um að taka ákvörðun í stórum málum sem þessum, hún er fyllilega fær um að fá þetta mál til sín núna rétt eins og þá. Og núna eins og fyrir ári tel ég réttast að þingið samþykki að vísa þessu máli til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég mun því greiða atkvæði með báðum tillögunum sem eru þar að lútandi í dag og segi því já.