139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:44]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Flestir sérfræðingar eru sammála um að Íslendingum beri engin lagaskylda til þess að greiða fyrir Icesave-samningana. Að sjálfsögðu var þetta notað í samningaviðræðunum til þess að ná fram betri samningum en áður. En eftir hvílir sú spurning hvort við eigum að greiða þetta yfir höfuð eða ekki. Í þessari tillögu er ekki lagt til að þjóðin eða ríkisstjórnin láti reyna á málið. Hér er eingöngu lagt til að ef þar til bær úrlausnaraðili eða dómstóll kemst að því að ekki sé ríkisábyrgð á bak við samningana eða betri réttur skapast á sviði Evrópulöggjafar, hún skýrist eða lagaleg skylda til að ábyrgjast innstæður minnkar eða á annan hátt liggi fyrir að ríkisábyrgð sé ekki til staðar, þá gildi það fyrir þennan samning. Þetta er fullkomlega eðlilegt. Það er fullkomlega eðlilegt að sjálfstæð þjóð sem vill standa í lappirnar gagnvart órétti hvar sem hann birtist setji svona ákvæði.

Ef einhver skyldi komast að því að við ættum ekki að greiða, er þá ekki sanngjarnt og eðlilegt að það væri þannig og þá félli þessi ríkisábyrgð einfaldlega niður? Um það fjallar þessi tillaga og ég skora á (Forseti hringir.) meiri hlutann að standa með þjóðinni, standa í lappirnar (Forseti hringir.) og samþykkja þessa tillögu.