139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Icesave-deilan hefur hvílt eins og mara yfir þjóðinni frá hruni og er ein ömurlegasta birtingarmynd íslenskra fjárglæframanna á erlendri grundu og lélegrar stjórnsýslu og stjórnmálamenningar eins og fram kemur í rannsóknarskýrslunni.

Íslensk stjórnvöld fengu það í fangið til úrlausnar ásamt því að endurreisa eitt stykki íslenskt þjóðfélag úr molum. Lögð hefur verið gífurleg vinna í að semja við Breta og Hollendinga í þessu erfiða milliríkjamáli og allar fjörur gengnar aftur og aftur. Hér erum við stödd með þennan samning sem þjóðarbúið ræður við og er ein forsenda þess að við getum aftur orðið þátttakendur í alþjóðasamfélagi og að hagvöxtur og atvinnulíf eflist. Við kjósum vandann ekki frá okkur frekar en aðrar afleiðingar hrunsins heldur leysum við hann að hætti siðaðra þjóða. Því segi ég já enn og aftur.