139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:57]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að þakka samninganefndinni, sem skilaði núverandi samningi í höfn, kærlega fyrir hennar störf. Þar voru menn þvert á alla flokka sammála um að ekki væri hægt að ná lengra í samningaviðræðum við þær þjóðir sem um er að ræða, betri samningi væri ekki hægt að ná. Það voru gild rök sem þessir menn lögðu á borðið, þvert á alla flokka. Það var afskaplega mikilvægt fyrir umræðuna.

Hér er fjallað um já eða nei. Ég tel að minni áhætta sé af því að segja já en nei, ekki síst fyrir atvinnulaust fólk í þessu landi.