139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:59]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Icesave er í eðli sínu vont mál en það þarf að leysa. Málið hefur lagast mjög, m.a. vegna mikillar baráttu stjórnarandstöðunnar, Indefence, aðkomu forseta Íslands og stórs hluta þjóðarinnar.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í fyrra stóðum við frammi fyrir tveimur kostum, þ.e. að reyna að ná betri samningum eða að neita að borga og fara fyrir dómstóla. Við völdum samningaleiðina. Ég tel að það hafi verið mjög farsælt að stjórn og stjórnarandstaða sameinuðust um nýjar samningaviðræður. Niðurstaðan varð líka tíu sinnum betri samningur.

Það er mitt mat að við náum ekki betri samningum ef farið væri af stað enn á ný í nýjar samningaviðræður. Ég tel líka ólíklegt að við mundum vinna dómsmál vegna Icesave. Ég tel að allt bankakerfið í Evrópu sé undir þannig að litlar líkur séu á því að við mundum vinna slíkt mál. Það er því heildarmat mitt að ekki sé rétt að hafna og segja nei við þessum samningi. Ég sit því hjá í þessari atkvæðagreiðslu.