139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:06]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég er trúr þeirri stefnuskrá sem ég var kosinn út á. Þar stendur skýrum stöfum að ekki eigi að greiða Icesave, Ísland eigi ekki að greiða Icesave. Ég segi því nei við þessu.

Ég hef unnið mjög þétt með fjárlaganefndarmönnum í þessu máli frá því sumarið 2009, þar á meðal með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Viðsnúningur þeirra veldur mér miklum vonbrigðum. Ég þekki vel til vinnubragða þeirra og ég hef kynnt mér vel afstöðu þeirra og ég veit að ekki eru efnisleg rök fyrir viðsnúningi þeirra. Niðurstaða mín í þessu máli er því sú að þessa löggjöf, eins og svo marga aðra löggjöf á Alþingi Íslendinga, sé búið að gera að verslunarvöru fyrir sérhagsmuni. Það verður gaman að sjá í framhaldinu hver kostnaðurinn verður og hver kemur til með að greiða hann og bera afleiðingarnar af þessari verslun. Ég segi nei. (BjarnB: Þér til skammar eins og ávallt.)