139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í hreinskilni sagt er þetta dagur mikilla vonbrigða. Það er mikill ósigur í þessu máli fyrir þau sjónarmið sem við mörg höfum haldið uppi. Alþingi Íslendinga hefur hafnað því að þjóðin fái að eiga síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mikilvæga mál. Og nú horfum við upp á það að yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna á Alþingi Íslendinga styður þessa samninga. Það hefur sjaldan opinberast eins hversu mikil gjá er á milli þings og þjóðar í þessu máli.

Hér er verið að samþykkja samninga þar sem Íslendingar munu bera alla efnahagslega áhættu. Ég get ekki fellt mig við það. Ég vonast til þess að þjóðin taki höndum saman og ég skora á forseta lýðveldisins að fá henni málið aftur í hendur. (Forseti hringir.) Þjóðin tók rétta ákvörðun í fyrra með því að hafna samningunum þá. Ríkisstjórnin tók þá ranga ákvörðun. Af hverju ættu (Forseti hringir.) hlutirnir að vera eitthvað öðruvísi núna? Ég segi nei.