139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Icesave-samningurinn felur, að mínu mati, í sér óásættanlega fjárhagslega og efnahagslega áhættu fyrir Ísland og fyrir íslensku þjóðina.

Það er einkennilegur veruleiki sem blasir við íslensku þjóðinni í dag þegar forusta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins hafa tekið höndum saman með Samfylkingunni um að ná sáttum við Evrópusambandið, allt til að tryggja að útlendingar geti komið til Íslands og fjárfest og þá væntanlega einna helst í orkufrekum iðnaði og sjávarútvegi.

Það hefði verið nauðsynlegt og sanngjarnt að takmarka þá áhættu sem felst í samningnum sem þessir þrír flokkar hafa í hyggju að samþykkja hér, að setja þak á hana og deila henni með hinum svokölluðu viðsemjendum okkar. Það var ekki gert og því get ég alls ekki samþykkt ríkisábyrgðina. Ég segi nei.