139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[15:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Á fimmtudaginn féll dómur í Hæstarétti þar sem Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að umhverfisráðherra hefði brotið lög með því að synja aðalskipulagi Flóahrepps fyrir tveimur árum. Það var utandagskrárumræða um málið í gær og ég fór í tvígang rangt með sem ég vil nota tækifærið til að leiðrétta núna. Ég taldi að hæstaréttardómararnir hefðu verið sex, þeir voru fimm. Héraðsdómurinn var Héraðsdómur Reykjavíkur, ekki Suðurlands. Ég leiðrétti þetta hér með.

Viðbrögð hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar hafa verið með nokkrum ólíkindum að mínu mati. Hæstv. umhverfisráðherra segir: Ég er í pólitík, þetta er mín pólitík og eftir því fer ég. Hæstv. forsætisráðherra segir að ekkert sé athugavert við þetta, þau í þessari ríkisstjórn ætluðu hvort sem er aldrei að virkja í neðri hluta Þjórsár og þá skiptir væntanlega ekki máli hvaða lög eru brotin í þeim efnum. Hæstv. fjármálaráðherra segir að hæstaréttardómurinn sé ekki áfellisdómur yfir ráðherranum, loksins sé kominn umhverfisráðherra sem setur umhverfið ofar öðru.

Aðspurð í utandagskrárumræðu í gær um hvort hún ætti að axla pólitíska ábyrgð sagði umhverfisráðherra, með leyfi forseta:

„Varðandi pólitíska ábyrgð, já, ég axla pólitíska ábyrgð á öllum mínum verkum með því að vinna þau störf sem mér er trúað fyrir. Hér er þingbundin stjórn og ég sit í umboði meiri hluta Alþingis.“

Ég vil spyrja hv. þm. Kristján L. Möller sem er formaður iðnaðarnefndar og hefur, sem ég hef tekið eftir, ekki alveg sömu pólitísku skoðanir á atvinnumálum og atvinnuuppbyggingu og hæstv. umhverfisráðherra hefur látið í ljósi og haft sem eina af forsendunum fyrir þessari ákvörðun sinni: Situr hæstv. umhverfisráðherra í hans umboði? Mundi hv. þingmaður verja hæstv. umhverfisráðherra vantrausti ef slík (Forseti hringir.) tillaga kæmi fram?