139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[16:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil láta það koma fram að ég tel eðlilegt að utanríkismálanefnd fjalli um þessi mál sameiginlega. Báðar tillögurnar fjalla um umsóknarferli okkar gagnvart ESB. Það er í raun þannig að ef t.d. þingið tæki þá ákvörðun að samþykkja tillöguna sem gengur út á það að draga umsóknina til baka þá fellur hin í sjálfu sér þar með, því að þá yrði auðvitað ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort halda ætti áfram umsóknarferlinu eða ekki.

Að þessu leyti til finnst mér eðlilegt að við ræðum þær í samhengi í utanríkismálanefnd. Hvað síðan er gert hér í þingsal er svo annað mál og ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því að svo komnu máli, en þetta er það sem ég hef hugleitt varðandi meðferð málsins í utanríkismálanefnd og ég tel að þannig sé samhengi milli málanna.

Um tímasetningarnar sem hv. þingmaður nefndi má segja að nefndinni sem fjallar um málið er auðvitað ekkert að vanbúnaði ef hún leggur til að tillaga hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur verði samþykkt. Nefndinni er ekkert að vanbúnaði að gera breytingartillögu við þá tillögu að því er varðar tímasetningu, þannig að ég held að ágætlega sé fyrir þessu séð, en nefndin hefur ekki enn þá tekið afstöðu til þess hvaða tillögu hún gerir um úrslit þessara mála. Hún mun gera það í nefndaráliti annaðhvort einu eða fleiru eftir atvikum þegar þar að kemur. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það verður enginn ástæðulaus dráttur á því að utanríkismálanefnd afgreiði þessi mál.