139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[16:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir svörin sem hann gaf hér áðan. Ég verð að segja við þingmanninn að ég vissi og gerði mér fyllilega grein fyrir því að hann og hæstv. umhverfisráðherra tilheyra ekki sama flokknum. Ég vil þá upplýsa hv. þingmann um að hv. þingmaður og hæstv. umhverfisráðherra tilheyra og styðja sömu ríkisstjórnina.

Hæstv. umhverfisráðherra sagðist bera pólitíska ábyrgð á verkum sínum með því að vinna vinnuna sína fyrir þann pólitíska meiri hluta á Alþingi sem studdi hana. Þess vegna vil ég ítreka spurningu mína til hv. þingmanns: Væri hv. þingmaður tilbúinn að verja hæstv. umhverfisráðherra vantrausti ef slík tillaga kæmi fram? (Gripið fram í: Um náttúru…?) Er hv. þingmaður tilbúinn að bera pólitíska ábyrgð á hæstv. umhverfisráðherra?

Hæstv. umhverfisráðherra spurði nefnilega í umræðunni í gær hvaða hagsmunir ættu að njóta vafans þegar upp kæmu álitamál og hv. þingmaður fór vel yfir það að sannarlega væri um að ræða álitamál sem tengdust þessu. Ég lít svo á að þau álitamál, ef menn skoða fordæmi og fara yfir það hvernig þessir hlutir hafa verið gerðir, væru ekki svo mikil álitamál að fara þyrfti í allan þennan málarekstur. Hæstv. umhverfisráðherra talaði um hvort það væru hagsmunir viðskipta- og atvinnulífs eða hagsmunir almennings og umhverfis. Ég held því fram að þessir hagsmunir eigi ekki bara heldur fari vel saman. Ég spyr þá hv. þingmann hvort hann geti ekki verið sammála mér um að við getum notið náttúrunnar og nýtt hana á sama tíma. Og ef við ætlum að (Forseti hringir.) leyfa almenningi að njóta vafans, hvort hann sé ekki sammála mér í því að við þurfum þá að setja á okkur skautana í atvinnuuppbyggingu í landinu?