139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[16:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem hefur komið fram í máli þeirra hv. þingmanna sem hafa talað um atvinnumál. Brýnasta verkefni okkar núna er að koma atvinnuuppbyggingunni og atvinnulífinu í gang.

Ég kem hér upp út af öðru tilefni. Eins og allir vita var kjördæmavika í síðustu viku þar sem þingmönnum gafst kostur á að hitta fólk og kjósendur. Mig langar að deila þeirri reynslu sem ég upplifði. Það sem stendur upp úr hjá fólki er akkúrat það sem við vorum að enda við að ræða, þ.e. mikilvægi atvinnuuppbyggingar, til að hægt sé að snúa af þessari skattpíningarbraut ríkisstjórnarinnar. Fólk hafði sérstaklega orð á því hversu ráðstöfunartekjur þess höfðu minnkað og það hafði áhyggjur af atvinnumálum. Í kjördæmi mínu komu í ljós miklar áhyggjur fólks af þeim mismun sem á sér stað gagnvart raforkuverði þar sem íbúar á landsbyggðinni greiða allt upp í þrisvar sinnum hærra verð fyrir að kynda húsin sín en þeir sem hafa aðgang að hitaveitu. Þetta eru einungis 10% af þjóðinni og þetta er atriði sem við stjórnmálamenn verðum að fara að taka mjög alvarlega á og gera eitthvað í í stað þess að tala bara um það.

Síðast en ekki síst hefur komið í ljós að með þessari skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar hefur flutningskostnaður aukist mjög til muna á landsbyggðinni sem stendur fyrirtækjum þar fyrir þrifum þar sem þau eru ekki lengur samkeppnishæf við önnur fyrirtæki.

Síðan var mjög skýrt að óvissan í sjávarútvegi er algjörlega óþolandi. Það var alveg sama við hvern maður talaði, hvort sem það voru sveitarstjórnarmenn, forsvarsmenn fiskvinnslufyrirtækja eða aðrir. Þessi óvissa er algerlega óþolandi.

Því til staðfestingar fór ég í mjög gott fyrirtæki, 3X-Stál á Ísafirði, sem framleiðir tæki og tól fyrir fiskvinnslur og matvælavinnslur. Eðlilegt árferði í gegnum tíðina í þessu glæsilega fyrirtæki var 50–70% á innlendum markaði. Í dag er það núll. Ekki neitt. Akkúrat ekki neitt. Bara út af óvissu í sjávarútvegi. Slík óvissa stendur okkur fyrir þrifum til að við getum farið (Forseti hringir.) að byggja hér aftur upp þjóðfélag og skapað atvinnu. Við verðum að eyða þessari óþolandi óvissu.