139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[16:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það var sem mig grunaði, það er stórt og mikið bil á milli þingmanna Samfylkingarinnar þegar kemur að uppbyggingu í atvinnumálum. Það kemur heldur svo sem ekki á óvart að forseti Íslands sé u.þ.b. eina sameiningartáknið sem þeir geta sameinast um en þar með er upptalið. (Utanrrh.: Og við.)

Síðan er komið að þessu stóra máli sem ég vil tengja aftan við þá ræðu sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson flutti áðan, það varðar óvissu í atvinnuvegunum, ekki síst í sjávarútvegsmálunum. Ég vil meina að þingmenn í öllum flokkum, hófsemdarfólk í öllum flokkum, geti útilokað ofstækisleiðir sem stundum ríða röftum í þinginu. Við getum sameinast um að koma af stað atvinnuuppbyggingunni í sjávarútvegi. Við sjáum að meðal vinstri grænna er hljómgrunnur í þá veru, meira en það, það er beinn stuðningur við að fara af stað með samningaleiðina og klára málið. Ég þarf ekki að tala um stuðninginn hjá Framsóknarflokknum eða Sjálfstæðisflokknum, við viljum fara af stað og eyða þessari óvissu. Ég veit að það eru nokkrir þingmenn innan Samfylkingarinnar sem vilja gera nákvæmlega það sama.

Það sama á við um uppbyggingu, ekki bara í stóriðju, heldur í að nýta orkuna þannig að við getum ýtt af stað bæði stóriðnaði og líka smáiðnaði. Við gerðum það saman hér rétt fyrir jól þegar umburðarlyndisöflin réðu, eins og þegar hv. þm. Kristján L. Möller sameinaðist með okkur sjálfstæðismönnum í því að liðka fyrir gagnaverunum og uppbyggingu þeirra. Það er hægt að fara af stað með atvinnuuppbyggingu ef hófsemdaröflin í öllum þingflokkum taka nú höndum saman til að ýta af stað atvinnuuppbyggingunni í landinu. Allt of margir eru atvinnulausir og þeir þurfa á því að halda að við tökum höndum saman í þinginu. Við getum byrjað á því og það er ósköp einfalt að fara þá leið sem sáttanefndin í sjávarútvegi hefur lagt til, þ.e. að fara samningaleiðina í sjávarútvegi. Það var samþykkt í nefndinni 18:2. Við skulum hlusta á þann djúpstæða meiri hluta sem var þar til að ýta af stað, og frá (Forseti hringir.) óvissunni sem er núna í sjávarútveginum. Það er auðvelt skref að taka.