139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

úttekt á öryggisútbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.

276. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Herjólfur hefur reynst ágætlega í þau tæpu 20 ár sem hann hefur verið í notkun, en það er löngu kominn aldurstími á skipið og þótt því sé enn haldið úti og verði um einhver missiri enn, vonandi ekki meira en eitt eða tvö ár í tengslum við Landeyjahöfn og Þorlákshöfn, er mikilvægt að tryggja að allir þættir í skipinu séu tryggir.

Það komu ábendingar frá reyndum baráttumönnum í öryggismálum, þeim Sigmundi Jóhannssyni, uppfinningamanni og teiknara, og Friðriki Ásmundssyni, fyrrverandi skipstjóra og skólastjóra Stýrimannaskólans í Eyjum, fyrir hönd Félags áhugamanna í Vestmannaeyjum um öryggismál sjómanna, að alvarlegar brotalamir séu í öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Víst er miðað við að lífaldur ferja af svipaðri gerð og Herjólfur sé um 15 ár en nú er skipið sem sagt að ná 20 ára aldrinum. Það skiptir miklu máli að huga vel að þessu og tryggja að allir þættir séu í lagi.

Í þessari þingsályktunartillögu eru talin upp ein 11 atriði sem þurfi að huga að og að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að málinu verði vísað til samgöngunefndar með það í huga að það komist síðan á borð innanríkisráðherra til að fylgja eftir úttekt sem er ástæða til að gera, a.m.k. að eyða öllum vafa í þeim efnum. Þess verður að gæta númer eitt, tvö og þrjú í öllu er lýtur að sjósókn og farþegaflutningum um sjó að öryggi sé í fyrirrúmi.