139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

innlend framleiðsla innrennslisvökva til notkunar í lækningaskyni.

294. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir spurningarnar.

Það má eiginlega segja að í mínum huga vegi báðir þættir afar þungt. Þeir þættir sem snúa að örygginu eru afar mikilvægir og segja má að þegar eldgosið í Eyjafjallajökli hófst hafi þessi hugmynd komið upp, þ.e. að það væri ótækt að við gætum verið útsett fyrir því að þurfa á einhverjum tímapunkti að flytja alla vökva til landsins með skipum miðað við það birgðahald sem við erum með núna. Við erum á köflum ekki með birgðahald fyrir sjaldgæfustu vökvana nema til þriggja eða fjögurra vikna. Það getur beinlínis verið hættulegt fyrir okkur.

Hagkvæmnisatriðið spilar líka inn í og þar má t.d. nefna, af því að hv. þingmaður nefnir einkaaðila í þessu sambandi, að fyrir norðan, ég man ekki nákvæmlega hvar, hafa menn verið að skoða möguleika á að fara út í framleiðslu af þessu tagi fyrir innanlandsmarkað. Ég held að það væri mjög gott mál ef svo færi. Fari einkaaðilar hins vegar út í slíka framleiðslu þurfa samningar við opinbera geirann, þ.e. við sjúkrahúsin, að vera býsna tryggir og til langs tíma til að einhver möguleiki sé á því að ríkið, eða þeir sem semja fyrir ríkið, hlaupi ekki út úr slíkum samningum og skilji fyrirtækið ekki eftir forsendulaust. Ég geri í sjálfu sér ekkert sérstakt með það hvort það væri ríkið eða einhverjir (Forseti hringir.) aðrir aðilar sem kæmu að slíkum rekstri.