139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

innlend framleiðsla innrennslisvökva til notkunar í lækningaskyni.

294. mál
[16:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög skiljanlegt að þessi spurning um öryggissjónarmið hafi komið upp þegar gosið var í Eyjafjallajökli. Ég held hins vegar að vökvabirgðir hér séu yfirleitt til sex vikna og jafnvel þó það sé minna eru ekki vor- og haustskip hingað til lands, það tekur ekki mjög langan tíma að flytja vörur hingað. Ég held því að við séum alveg örugg með lyfjabirgðir í landinu. Þegar fuglaflensan var og svo annar inflúensufaraldur var séð til þess að nægilegt magn væri af vökvum í landinu. Og þegar útlit er fyrir að eitthvað gerist hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir til að tryggja að nægar birgðir séu í landinu. Nú veit ég að gos kemur „uforvarende“ en ég held að engin hætta sé á því að við höfum ekki þær birgðir af vökvum og lyfjum í landinu sem við þurfum, ekki einu sinni þó hér sé mikið eldgos.

Ég tel varhugavert að fara út í ríkisrekstur, jafnvel af þessu tagi, ef gera þarf samninga 20 ár fram í tímann. Rekstur hér á landi verður að standa undir sér og þeir sem vildu setja framleiðslu af þessu tagi af stað geta reiknað út hver þörfin er næstu ár, þeir þurfa þá að sjá til þess að framleiðsla þeirra standist samkeppni við það sem gerist erlendis. Ég mundi vera mjög efins um að fara út í framleiðslu (Forseti hringir.) sem stæði ekki örugglega undir sér, en mér finnst gott að gera þessa hagkvæmnisútreikninga.