139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

innlend framleiðsla innrennslisvökva til notkunar í lækningaskyni.

294. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma aftur inn á hagkvæmnisþættina. Eins og ég sagði í fyrra svari mínu snýr þetta að því að ef einkaaðilar færu út í slíkan rekstur þyrfti það að vera með býsna góðum samningum við þær stofnanir sem ríkið rekur á þessu sviði vegna þess að það eru stærstu notendurnir. Ég geri ekki ráð fyrir að einkaaðilar færu út í þetta á öðrum forsendum en þeim að hafa langa og örugga samninga við stærstu kaupendurna. Það er það sem snýr að því.

Varðandi öryggisþættina kemur fram í skýrslunni, sem fylgir í greinargerð, að við það að sjúkdómar komi til landsins, til að mynda inflúensupestir sem eru nefndar þar, getur vökvaþörfin í landinu á örskömmum tíma þrefaldast. Það er rétt, sem hv. þingmaður kemur inn á, að birgðir fyrir algengustu vökva duga að jafnaði í fimm til sex vikur. En vissar tegundir vökva hafa ekki hillulíf þannig að hægt sé að geyma þá í stórum stíl, hvað þá að fara með litlum fyrirvara út í framleiðslu á þeim hér innan lands. Auðvitað yrði það alltaf þannig að á endanum bærust vökvar til landsins með skipi, það er alveg rétt. En að mínu viti er það öryggisatriði að tryggja að við getum brugðist við innan lands með skjótum hætti. Það er svo annað mál að þessu fylgir sú hagkvæmni að við sköpum störf hér á landi og sýni hagkvæmnisathugun fram á að það sé betra og ódýrara á að fara þá leið.