139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir með honum að það er mjög mikilvægt að við séum með málefnaleg rök í umræðunni. Mér þykir það mjög mikilvægt í þessu máli eins og öðrum.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég geri mér ekki alveg fulla grein fyrir því hvort við erum í aðildarviðræðum eða aðlögun. Þá vísa ég til yfirlýsinga hv. þingmanna sem eru í sama þingflokki og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson. Þeir fullyrða, meira að segja sumir hæstv. ráðherrar, að það sé eitthvert aðlögunarferli í gangi en ekki aðildarviðræður.

Því langar mig að spyrja hvort það sé algerlega skýrt, sem mér fannst reyndar koma fram í ræðu hans, að það sé ekki rétt að við séum í aðlögun eins og þessir einstaklingar halda fram. Að við þurfum ekki að fara í aðlögun fyrr en búið er að samþykkja eða bera niðurstöðuna úr samningunum undir þjóðina.

Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni að þegar ríkisstjórnin var mynduð gengu allir óskuldbundnir til þess verks að samþykkja umsóknina eða ekki. Nú hefur einn þingmaður, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, fullyrt í þessum ræðustól að hæstv. forsætisráðherra hafi verið með hótanir við menn og sagt að fyrsta vinstri stjórnin mundi falla ef þessi þingsályktunartillaga yrði ekki samþykkt.

Því langar mig að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson: Er það rangt sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason heldur fram?

Síðan sagði hv. þingmaður líka að hann efaðist um þann 7 milljarða kr. kostnað sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir fjallaði um áðan. Hann fór að vísu ekki nákvæmlega yfir hvernig sá kostnaður var fundinn því að hann er falinn vítt og breitt um fjárlögin og menn eyrnamerkja ekki peninga einmitt þessu starfi. Hver er heildarkostnaðurinn við umsókn og aðildarviðræður við Evrópusambandið að mati hv. þingmanns?