139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú búinn að finna töfluna í nefndaráliti utanríkismálanefndar frá 2009. Þar er birt áætlun um kostnað vegna aðildarumsóknarinnar. Á árinu 2009 var gert ráð fyrir um 50 millj. kr. kostnaði. Á árinu 2010 var gert ráð fyrir 180 millj. í þýðingarkostnað, 50 millj. í kostnað í öðrum ráðuneytum og 200 millj. hjá utanríkisráðuneytinu. Á árinu 2011 er gert ráð fyrir 100 millj. hjá utanríkisráðuneytinu, 50 millj. hjá öðrum ráðuneytum og 180 millj. í þýðingar. Á árinu 2012 er gert ráð fyrir 180 millj. í þýðingar. Það má finna þessa töflu hér.

Ég vil síðan láta það koma fram að í skriflegu svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn á síðasta ári frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um mannafla í ráðuneytinu og helstu stofnunum sem véla um málefni sjávarútvegs og landbúnaðar í þessum viðræðum, segir að gert hafi verið ráð fyrir því að um 0,5% af öllum mannafla þessara þriggja stofnana og ráðuneytisins væri upptekinn við viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Auðvitað gæti það skipst ójafnt á milli þessara stofnana frá einum tíma til annars, en þetta kom fram í skriflegu svari hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég geri ráð fyrir að það sé rétt.

Varðandi styrkjamálin hafa verið skiptar skoðanir um hvort taka eigi við þeim styrkjum sem í boði eru af hálfu Evrópusambandsins og hefur verið lögð áhersla á að það sé alfarið Íslands mál hvort við þiggjum þá eða ekki. Í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum við lagt áherslu á að ekki sé tekið við styrkjum sem beinlínis lúta að umsóknarferlinu eða beinlínis undirbúa aðild. (Forseti hringir.) Nú er tími minn liðinn en ég vonast til að geta komið aftur að málinu í síðari ræðu og farið aðeins betur yfir það, hv. þingmaður.