139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að vona að hv. þingmaður hafi ekki verið boða að hann ætli að svara hv. þm. Ásbirni Óttarssyni í sínum tíma þegar hann ætlar að tala við mig hér.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að reyna að upplýsa um kostnaðinn við aðildarumsóknina vegna þess að við höfum verið í stökustu vandræðum með að fá það fram. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar að það liggur einfaldlega ekki fyrir. Ekki er hægt að benda á þessa einu tölu í fjárlögunum, vegna þess að þetta dreifist yfir alla stjórnsýsluna og hefur verið reynt að knýja fram svör af hálfu utanríkisráðherra hér eins og ég fór inn á í ræðu minni. Ég held að í ljósi mikilla yfirlýsinga og kröfu um opin og gagnsæ vinnubrögð væri ágætt ef hv. þingmaður beitti sér fyrir því að rétt tala kæmi fram, ef hv. þingmaður er á þeirri skoðun að í þessari greinargerð sé er verið að ofmeta þann kostnað sem talinn er fólginn í ferlinu. Auðvitað viljum við öll, sama hvaða skoðunar við erum, vera að tala um hlutina á réttum forsendum. Þetta eru þær tölur sem við komumst næst því að áætla vegna þess að við fáum ekki skýr svör. Það er ástæðan. Það væri þá ágætt ef hv. þingmaður, sem er í þeirri stöðu að vera formaður utanríkismálanefndar og hefur tögl og hagldir í því að stýra umræðunni á þann hátt að hún verði málefnaleg og upplýst, tæki einfaldlega bara af skarið og kallaði eftir þessum upplýsingum, eftir skýrum svörum frá ráðherranum um þetta.

Varðandi aðlögunina og þær mismunandi skoðanir sem við höfum á því hvort aðlögun sé í gangi eða aðildarferli þá kemur það fram á heimasíðu Evrópusambandsins að hraði aðildarviðræðna ræðst af því hversu hratt umsóknarlandið lagar sig að regluverki Evrópusambandsins og hversu hratt stjórnsýsluumbætur (Forseti hringir.) ganga. Er þá Ísland með einhverja undanþágu frá aðlögunarferlinu? Hvar hefur sú undanþága verið veitt og hvar hefur það komið fram?