139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi aðlögun eða ekki aðlögun er ljóst að það er verið að túlka þetta í ýmsar áttir. Ég held að þá sé ráð að fá það upp á borðið í eitt skipti fyrir öll með því að spyrja hreinlega Evrópusambandið hvað þetta þýði, fá upp á borðið hvað sé í gangi og hvernig þetta þurfi að vera. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur sagt að í raun sé verið að aðlaga stjórnkerfið, það þurfi að gera það áður en við göngum inn. Það er annað en hér er verið að segja.

Mig langar ekki að ræða það við hv. þingmann, heldur annað. Skildi ég hv. þingmann rétt þegar hún orðaði það einhvern veginn þannig áðan, ég skildi a.m.k. orð hennar þannig, að í raun skipti ekki máli hvaða gjaldmiðil við værum með ef hagstjórnin væri ekki í lagi? Skiptir ekki máli hvort við erum með evru eða einhvern annan gjaldmiðil ef við erum ekki með aga á hagstjórninni og hún úti um víðan völl, eins og hún hefur kannski verið hjá okkur, því miður? Ef það er þannig og ef það er rétt að við getum í fyrsta lagi fengið evru eftir tíu ár, mögulega þegar við uppfyllum Maastricht-skilyrðin sem sett eru fyrir því, hljótum við að velta fyrir okkur hvort hag Íslendinga sé best borgið með því að hjakka í þessu sama fari og bíða eftir því að fá evru. Ef það er mat hv. þingmanns að það skipti miklu máli að fá hér annan gjaldmiðil, er þá rétt að bíða eftir því að við uppfyllum skilyrðin fyrir evru — ef það skiptir ekki máli hvaða gjaldmiðil við notum? Hún segir að það liggi í hagstjórninni. Af hverju skoðum við þá ekki að taka upp annan gjaldmiðil? Það getur vel verið að evran verði ofan á einhvern tímann, ég veit ekkert um það. Ef það er hins vegar þannig sem margir halda fram að blessuð krónan sé það versta sem yfir okkur hefur dunið, er þá eitthvað að því að skoða það að taka upp annan gjaldmiðil?

Áðan var talað um sleggjudóma. Mér finnst að þeir sem eru mjög hlynntir aðild að Evrópusambandinu séu einmitt með mikla sleggjudóma þegar því er haldið fram að allsherjarlausnin sé upptaka evru.