139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það sé alveg ljóst að til þess að efnahagslíf sé stöðugt þurfi að vera agi bæði í fjármálastjórn og peningamálastjórn. Íslenska krónan mun ekki fljóta ein og sér. Ég tel bestu leiðina þá að fara í Evrópusambandið og þá munum við einnig taka upp evru. Það er samt ekki bara út af evrunni sem ég tel best að fara í Evrópusambandið. Ég hef margar aðrar ástæður fyrir því og ég tel að okkur verði vel borgið í þeim félagsskap sem mér finnst flottur. Við erum með alveg klára stefnu í því hvernig við ætlum að losa Ísland úr þessum gjaldeyrishöftum, það er með aðstoð Evrópusambandsins. Við ætlum að ganga í það og stefna að því að taka upp evru. Við ætlum ekki bara að ganga inn út af evrunni en hún fylgir með sem bónus, og það er ekki lítill bónus.