139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:29]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ber mikla virðingu fyrir skoðunum hv. þingmanns sem er þeirrar skoðunar að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Hún hefur verið trú þeirri skoðun sinni og rökstutt hana og er hrein og bein með það. Ég fagna því að hv. þingmaður telur að við eigum ekki að vera í neinum feluleik með aðlögunina, ég skil heldur ekki þá umræðu. Það er öllum ljóst að aðlögun er í gangi, engu að síður er því neitað af hæstv. utanríkisráðherra að svo sé. Ég fagna því að hv. þingmaður tekur ekki þátt í slíku og hefur ekki verið neitt feimin við að lýsa því yfir að aðlögun sé í gangi.

Ég vil ekki leggja hv. þingmanni orð í munn í ljósi síðustu orðaskipta en mér heyrðist hv. þingmaður segja áðan að stefnan væri að ganga í Evrópusambandið og afnema þar með gjaldeyrishöftin og fá stuðning til þess. Hver hefur þá stefnu? Er það ríkisstjórnin? Er það Samfylkingin? Eða misskildi ég orð hv. þingmanns?