139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við höfum sótt um aðild að Evrópusambandinu og erum að semja okkur að því hvernig við getum tekið upp þær reglur sem þar gilda. Ein af þeim reglum sem þar gildir er t.d. að viðskiptasamningar við þriðju ríki eru gerðir innan Evrópusambandsins. Það þýðir að ríkin í Evrópusambandinu koma fyrst saman og semja sín á milli um það hvernig þau eiga að semja saman út á við. Það þýðir ekki að einhver sitji bara og geri ekki neitt.

Hv. þingmaður nefndi að matarskorti væri spáð í heiminum og nú hefur það gjarnan verið þannig í samningum ríkari ríkja við fátækari ríki að innflutningshömlur eru á landbúnaðarvörum sem eru vörurnar sem fátæku ríkin geta framleitt. Innflutningshömlur í Evrópusambandinu eru minni en hingað til okkar á Íslandi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hver er skoðun hans á því að ríku löndin séu með innflutningsmúra á einu vöruna sem fátæku ríkin geta framleitt og verið samkeppnishæfari í en við?