139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sem ég, ásamt tveimur öðrum hv. þingmönnum, er meðflutningsmaður að. Töluvert hefur verið rætt um aðdraganda þess að þessi umsókn var samþykkt hér í þinginu og með hvaða hætti þá atkvæðagreiðslu bar að. Sá sem hér stendur hefur verið sakaður um að fara með rangt mál þegar verið er að lýsa þeim hamagangi, því sem gekk á hér í þinginu bæði þegar málið var afgreitt úr nefnd og eins þegar það var afgreitt hér. Ég ætla að rifja þetta einu sinni enn upp af því að sá sem hér stendur fer ekki með rangt mál hvað þetta snertir og það eru fleiri í röðum vinstri grænna sem eru tilbúnir til að staðfesta það.

Það lá ljóst fyrir þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að skoðanir voru mjög skiptar um það hvort sótt skyldi um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Niðurstaðan varð hins vegar sú að lögð var fram þingsályktunartillaga um að sækja um aðild hér í þinginu og samið var um að hver þingmaður skyldi vera frjáls í þingsal og geta barist gegn málinu sem og umsókninni eða aðildinni sjálfri með þeim hætti sem honum sýndist. Þetta var bókað og nokkrir þingmenn Vinstri grænna bókuðu fyrirvara við þetta í samstarfsyfirlýsingu þegar hún var samþykkt. Samstarfsflokki Vinstri grænna í ríkisstjórn var þetta að fullu ljóst áður en haldið var af stað. Því skýtur það nokkuð skökku við þegar menn halda því fram að þessir sömu þingmenn fylgi ekki stjórnarsáttmála þar sem kveðið er á um að sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu.

Síðan gerist það að þessi þingsályktunartillaga kemur hér inn í þingið og menn bjuggust við því að breiðari stuðningur yrði við málið en ella. Það var þannig að þegar þetta var komið hér inn í þingið var það nær eingöngu einn stjórnmálaflokkur sem hafði mikinn áhuga á því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sá stjórnmálaflokkur heitir Samfylkingin, sá ágæti stjórnmálaflokkur.

Þegar mál fóru að þróast með þeim hætti hér í þinginu að tvísýnt var orðið með stuðning við málið var mikill hamagangur á öllum göngum, mikill hamagangur þegar taka átti málið úr nefnd og daginn fyrir atkvæðagreiðsluna og daginn sem atkvæðagreiðslan fór fram sat hæstv. forsætisráðherra hér í glerherberginu í matsalnum og kallaði hvern þingmann Vinstri grænna á fætur öðrum inn til sín. Þetta liggur algjörlega ljóst fyrir og ekki er verið að fara með rangt mál hvað þetta snertir. Það hefur meðal annars verið rætt í þingflokki Vinstri grænna, bæði fyrir og eftir þennan atburð, að þetta væri mjög ólýðræðislegt — mjög ólýðræðislegt þegar ákveðnir þingmenn væru búnir að bóka andstöðu við mál að málum væri þannig háttað. Það er einnig svo að SMS-sendingar fóru fram hér í þingsalnum. Þær liggja algjörlega klárar fyrir. Þær voru sendar hér á milli einstakra þingmanna.

Ég held að menn ættu, þegar þeir fjalla um þetta mál (Utanrrh.: Þú fékkst ekki SMS frá mér.) — ég fékk ekki SMS frá hæstv. utanríkisráðherra, það er alveg rétt, enda held ég að hann hafi gert sér grein fyrir því að ekki var mögulegt að snúa þeim sem hér stendur. Hugsanlega fengu einhverjir aðrir SMS en ég veit ekki hvort það var frá hæstv. utanríkisráðherra.

Svar hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hér áðan var ágætt, þegar hann fjallaði um það ferli sem nú er í gangi að það samræmdist engan veginn því að verið sé að sækja um aðild með einhvers konar skilyrðum. Hér er hreint og klárt aðlögunarferli hafið. Menn geta kallað það barnaskap. Menn geta kallað það hvað sem þeir vilja en embættismenn Evrópusambandsins, stækkunarstjórinn — öllum er kunnugt um hvaða ferli er í gangi. Við erum einfaldlega í sama ferli og Króatía sem sótti um aðild þar sem liggur fyrir að við verðum á samningstímanum að laga okkur að lagaramma Evrópusambandsins. Ég hef nefnt nokkur dæmi þar að lútandi. Það hefur til að mynda verið í landbúnaði og hefur komið fram á rýnifundum sem hafa verið haldnir, mikið hefur verið deilt um svör sem lágu fyrir á þeim rýnifundum. Þar var ekki spurt að því hvort Íslendingar ætluðu að aðlaga sig heldur var spurt hvenær og hvernig það gengi.

Embættismenn úr landbúnaðarráðuneytinu, sem hafa síðan komið fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hafa fullyrt að ef þetta yrði kynnt með þeim hætti að við værum ekki tilbúin til að gangast við þessu ferli fengjum við á okkur einhvers konar opnunar- eða lokunarskilyrði. Þau opnunar- og lokunarskilyrði munu væntanlega birtast okkur og það veit hæstv. utanríkisráðherra. Þetta er hluti af þessu ferli en það kann að vera að hæstv. utanríkisráðherra sé búinn að fá það í gegn að við séum í einhverju öðru ferli. Ekki segja embættismenn Evrópusambandsins.

Annað sem er hluti af þessu ferli og menn hljóta að velta fyrir sér: Af hverju er verið að sækja um styrki? Af hverju er verið að sækja um styrki til að undirbúa það að setja upp nýjar stjórnsýslustofnanir hér, til að mynda á sviði landbúnaðar? Það er eitt af því sem við ætluðum að semja um. Þetta er eitt af því sem flokkast undir skilyrði framsóknarmanna. Þetta er eitt af því sem talað er um í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar, að sé það sem við ætlum að fá undanþágu fyrir í samningaviðræðum okkar við Evrópusambandið. Það er til að mynda það hvernig við ætlum að haga stuðningi við landbúnaðinn okkar. En á sama tíma erum við að undirbúa það að setja upp lagaumgjörðina, áður en við förum í samningana. Þetta náttúrlega gengur ekki upp. Ekki nema menn séu svo heittrúaðir í því að vilja fara þarna inn eins og sumir hv. þingmenn eru. Þá er allt í lagi að breyta lögum og reglum. En meiri hluti íslensku þjóðarinnar er mótfallinn því og þess vegna gengur þetta ferli ekki upp.

Haft hefur verið eftir stækkunarstjóra Evrópusambandsins að ekkert viðræðuferli sé í boði eins og var þegar Noregur felldi aðild, nú sé einfaldlega bara ferli aðlögunar. Í það koma háar fjárhæðir af styrkjum, bæði til beinnar aðlögunar og eins í formi sérfræðiaðstoðar og fleiri þátta sem þessu tengjast.

Hægt væri að fjalla um fleiri þætti í þessu ferli sem verða að teljast mjög ólýðræðislegir. Til að mynda má nefna þær fregnir sem bárust okkur nýverið að Evrópusambandið sjálft væri að útbúa einhvers konar kynningarpakka sem ætti að bjóða hér út sem væri byggður á undirbúningsvinnu, bæði utanríkisráðuneytisins, utanríkisþjónustunnar og Evrópusambandsins sjálfs á Íslandi — sem sagt einhvers konar vinnu þar sem þeir hafa verið að skoða jarðveginn á Íslandi, hver afstaðan er til einstakra málaflokka og annað og hverju þurfi að einbeita sér að á þessu ári. Það eru 160 milljónir sem eru áætlaðar í þennan kynningarpakka, 160 milljónir eru áætlaðar í það að kynna Evrópusambandið. Þarna voru auglýsingaskrifstofur að bjóða í þennan kynningarpakka, meira að segja opinberar stofnanir eins og Háskóli Íslands, að bjóða í það að ráðast í jákvæða kynningu á Evrópusambandinu á Íslandi. Þetta er ekki mjög lýðræðislegt.

Það er ekki mjög lýðræðislegt þegar aðili á borð við Evrópusambandið, með mikið bolmagn, kemur inn í umræðu í svona litlu samfélagi með gríðarlegar fjárhæðir. Ef þeir fjármunir sem Evrópusambandið nýtir til þessara hluta eru settir í samhengi við til að mynda auglýsingar hjá stærri fyrirtækjum hef ég lesið um það — fjallað hefur verið um það víða erlendis að Evrópusambandið eyðir meira á ársgrunni í auglýsingar og kynningarstarfsemi á eigin ágæti en Coca Cola samsteypurnar gera í heiminum. Ef þetta Evrópusamband blessaða er nú svona ofsalega gott af hverju þarf þessar rosalegu auglýsingar og kynningar? Af hverju þarf 160 milljónir á þessu ári frá Evrópusambandinu í að auglýsa og kynna ágæti þess? Átti þetta ekki að vera upplýst umræða? Og er hún upplýst ef annar aðilinn er með fullar hendur fjár en hinn hefur miklu minna? Þetta er ekki mjög lýðræðisleg nálgun. Þetta er hluti af þeim styrkjum og hluti af þeim fjármunum sem er mikilvægt að stöðva og flokksráð Vinstri grænna lagðist gegn slíkum styrkjum. Þrátt fyrir þetta, þvert á stefnu annars ríkisstjórnarflokksins, streyma þessir fjármunir á fullu inn í landið.