139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann fullyrti í ræðu sinni að hæstv. forsætisráðherra hefði setið í glerbúrinu þegar ljóst var orðið að minni stuðningur væri við málið í þinginu en reiknað var með og verið með aðdróttanir eða hótanir, þó að hann nefndi það ekki sérstaklega, í garð þingmanna Vinstri grænna og sagði að send hafi verið SMS-skeyti og menn kallaðir á eintal. Það sem vakti athygli mína, af því að hv. þingmaður hefur sagt þetta áður, var að hann segir að þessi uppákoma hafi verið rædd sérstaklega á þingflokksfundi Vinstri grænna.

Nú fór ég í andsvar við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson áðan og hann fullyrti að honum væri ekki kunnugt um þetta. Það kemur mér verulega á óvart af því að hv. þingmaður hélt því fram að þetta hafi verið rætt á þingflokksfundi Vinstri grænna og ég velti þá fyrir mér hvort hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sem mætir nú mjög vel í þingið, hafi ekki verið viðstaddur eða hvort það geti verið að hann sé búinn að gleyma því.

Síðan langar mig að spyrja út í það sem hv. þingmaður kom inn á í restina, þessar 160 milljónir, þar sem hann sagði að það sé verið að bjóða þetta út til að kynna og auglýsa ágæti Evrópusambandsins og að háskólinn væri að bjóða í það verk. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst það mjög sérkennilegt ef háskólinn hefur umboð til þess að bjóða í það verkefni að fara að auglýsa og kynna ágæti Evrópusambandsins. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé alveg viss um að þetta sé með þeim hætti.

Eins langar mig líka að spyrja hv. þingmann þar sem hann talar um styrkina sem flæða inn í landið frá Evrópusambandinu og fullyrðir að það sé verið að setja þá í greiðslustofnun vegna landbúnaðarins: Hvernig koma þessir styrkir, af því að hæstv. ráðherrar Vinstri grænna hafa haldið því fram að þeir muni ekki þiggja þessa styrki? Er það einhver krókur á móti bragði að menn taki þetta í gegnum samninganefndina eða hvernig fer þetta eiginlega fram? Miðað við fullyrðingar hv. þingmanns fæ ég ekki botn í þetta mál og miðað við þau svör sem ég hef fengið fyrr í umræðunni.