139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal ekki segja, en varðandi það að þessi atkvæðagreiðsla fyrir einu og hálfu ári síðan hafi verið rædd í þingflokki Vinstri grænna, þá var hún rædd þar og hefur verið rædd oftar en einu sinni. Það er öllum ljóst sem eru hluti af þingflokki Vinstri grænna, hygg ég.

Hvað varðar styrkina eða réttara sagt þennan kynningarpakka þá var hann boðinn út og einn af þeim sem buðu í þetta verk var Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands sem er hluti af Háskóla Íslands og beitir sér töluvert í þessari umræðu. Þegar við búum við niðurskurð og annað reyna fjársveltar stofnanir auðvitað að sækja sér fé, en það er mjög óeðlilegt að þetta sé ekki stöðvað því að þetta leiðir náttúrlega ekki til annars en mismununar í umræðunni í landinu. Við vitum hver styrkur peninga er í svona löguðu, hann er töluvert mikill. Við skulum bara horfast í augu við það.

Varðandi ákveðna styrki sem sótt var um á sviði landbúnaðar þá er það svo að flokksráðsfundur Vinstri grænna hafnaði þeim styrkjum. Þingflokkur Vinstri grænna hefur aldrei samþykkt þá og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafnaði þeim. Þá var farin sú leið að samninganefnd Íslands sótti um þessa styrki. Ég hygg að það hafi verið samþykkt á fundi 29. des. sl. og síðan kynnt í landbúnaðarhópi í byrjun janúar. En þetta er að minnsta kosti þvert á stefnu annars stjórnarflokksins. Þannig liggur málið.