139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:11]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði til að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns vegna þess að það kann að vera einhver misskilningur hjá mér: Er það ekki örugglega skilningur hans að Ísland muni fyrst verða aðili að Evrópusambandinu að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning eða er þessum málum einhvern veginn öðruvísi háttað? Fer ekki fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamninginn þegar hann liggur fyrir burt séð frá því hvort menn eru í einhverju aðlögunarferli eða ekki?

Hér er mjög einföld og skýr spurning til hv. þingmanns: Verður Ísland aðili að Evrópusambandinu fyrr en þjóðin hefur samþykkt það í þjóðaratkvæðagreiðslu? Og er það ekki rétt munað hjá mér að hv. þingmaður hafi í dag talað um það í sama ræðustól og ég stend núna að við þingmenn ættum að treysta þjóðinni til að komast að réttri niðurstöðu — í allt öðru máli að vísu? Að hvaða leyti er þetta mál svo frábrugðið því að þjóðinni sé ekki treystandi til að komast að réttri niðurstöðu?