139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög skelegga og í raun merkilega ræðu. Þar kom margt fram, enda býr þingmaðurinn held ég yfir meiri þekkingu en margir hér á þessu ferli öllu saman enda mjög innan búðar í öðrum stjórnarflokknum.

Það sem ég velti fyrir mér eru þau orð sem hér komu fram um að það streymi fjármunir til landsins þvert á stefnu annars stjórnarflokksins. Það er að sjálfsögðu mjög merkilegt að svo sé og því hljótum við að spyrja okkur: Hvers vegna í ósköpunum stendur ekki sá stjórnarflokkur sem vill ekki fá þessa fjármuni í stríðum straumum til landsins, í lappirnar og segir: Hingað og ekki lengra, við viljum ekki fá þetta, við ætlum ekki að sitja undir því að verið sé að fara í bága við það sem við sömdum um í stjórnarsamstarfinu? Mig langar að velta því aðeins upp af hverju í ósköpunum það er ekki gert.

Síðan var annað sem kom fram, að samninganefndin er að sækja um styrki þegar ráðherra kærir sig ekki um það eða vill ekki gera það. Lítur þingmaðurinn svo á að það sé eðlilegt ferli og það sé eðlilegt inngrip af hálfu samninganefndarinnar að taka þannig í raun fram fyrir hendur ráðherrans og sækja um styrki sem hann vildi ekki sækja um eða svara þeim spurningum jafnvel sem ráðherrann ákvað að svara ekki og væri ekki hægt að svara?

Að lokum langar mig að nefna að það er að sjálfsögðu mjög varhugavert þegar stofnanir eins og Háskóli Íslands sækja um fjármuni sem þessa. Ég velti því fyrir mér og ég ætla bara að leyfa mér að segja það hér, frú forseti: Getum við treyst þeim fræðimönnum í framhaldinu sem þarna eru sækja um fjármuni í auglýsingamennsku fyrir Evrópusambandið? Geta þeir fræðimenn sem starfa í Háskóla Íslands síðan verið hlutlausir í umfjöllun (Forseti hringir.) um Evrópusambandið?