139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar þá styrki sem eru að berast nú til landsins og voru samþykktir af samninganefndinni þá liggur það ljóst fyrir að í það minnsta hafa flokksmenn í VG sagt þvert nei við þeim. Flokksráðsfundur Vinstri grænna hafnaði þessu alfarið á flokksráðsfundi sem haldinn var á síðasta ári. Hann hafnaði því alfarið að sótt væri um styrki í aðlögun eða hvers kyns verkefni sem þessu tengdist. Ég veit ekki til þess að þingflokkur VG hafi samþykkt að sótt yrði um slíka styrki, að mínu viti hefur það ekki verið. Því er sótt um þessa styrki þvert gegn stefnu annars stjórnarflokksins, það liggur ljóst fyrir.

Hvað varðar þá fjármuni sem hingað streyma til lands er það alveg hárrétt að það er náttúrlega ekkert annað en mútufé. Það er mjög óeðlilegt þegar fjársterkur aðili á borð við Evrópusambandið setur háar og miklar fjárhæðir til beinna kynningarmála og býður fé inn í stofnanir þar sem við erum búin að skera niður á erfiðum tímum. Þetta er mjög óeðlilegt og skekkir alla umræðu.

Það er hægt að gera margt fyrir 160 milljónir, það eru töluvert margar heilsíður, það eru töluvert margir fyrirlesarar sem hægt er að fá til landsins, það eru töluvert margar kynnisferðir sem hægt er að bjóða til til Brussel. Halda menn að þetta hafi ekki einhver áhrif?

Ef mönnum er umhugað um að útkljá þetta mál með lýðræðislegum hætti, mönnum hlýtur að vera umhugað um það, ættu þeir að stöðva þetta strax hvar svo sem í flokki þeir standa. En ég dreg stundum í efa að svo sé.