139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar ef ég hef talað óvarlega áðan, það var alls ekki meiningin. Ég reikna með að það hafi verið vegna fræðimannanna sem ég fékk ofanígjöf. Ég vildi einfaldlega koma því á framfæri að það er mjög vandasamt að vera hlutlaus fræðimaður og þiggja um leið mikla fjármuni frá öðrum aðilanum, það segir sig sjálft.

Frú forseti. Mig langar að spyrja einnar spurningar og koma inn á annað mál. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni og það hefur verið staðfest á fundi með þingmönnum, m.a. frá Eistlandi, að Evrópusambandið og þau ríki sem hafa staðið í viðræðum hafa sett mikla fjármuni í það að tala við þá aðila sem eru á móti Evrópusambandinu, laga skoðunina þannig að þegar á hólminn er komið verði búið að setja stefnuna á rétta braut. Það kom fram á fundi hér í færeyska herberginu, sem við köllum svo, með þingmönnum frá Eistlandi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað þýðir það þegar sagt er að það sé í lagi að sækja um og sjá hvað er í boði? Er eitthvað slíkt hægt? Er það ekki einmitt sú aðlögun sem hefur verið nefnd að þegar á hólminn er komið verðum við búin að aðlaga okkur að því sem er í boði?