139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Á síðasta ári átti ríkisstjórnin mjög gott samstarf við stjórnarandstöðuna og alla hagsmunaaðila í sjávarútvegi um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Komið var á fót svokallaðri sáttanefnd sem skilaði af sér skýrslu þar sem mjög breið samstaða var um allar meginlínur þeirra breytinga sem aðilar gátu fallist á. Sú niðurstaða hefur verið nefnd samningaleiðin, sem byggir á því að í stað ótímabundinna heimilda verði heimildum til veiða komið fyrir í tímabundnum samningum.

Ríkisstjórnin hefur haldið sjávarútvegsfyrirtækjum, hagsmunaaðilum í greininni og reyndar þjóðinni allri í ákveðinni óvissu um hvernig spila eigi úr niðurstöðu þess nefndarstarfs sem ég hef vísað til. En við vitum að nú er að störfum pólitísk nefnd stjórnarflokkanna sem ætlar að vinna eitthvað úr niðurstöðunum þó að gríðarlega mikil óvissa virðist ríkja um á hvaða forsendum nefndin var sett af stað og hvaða áherslur forsætisráðherra og ríkisstjórnin leggja fyrir hana. Ég óska þess vegna eftir því við hæstv. forsætisráðherra að hún komi hingað upp og geri betur grein fyrir hvar nefndarstarfið er statt, hvers vegna ekki er haldið áfram við að vinna málið í þverpólitískri sátt með aðkomu hagsmunaaðila og hvort hverfa eigi frá meginniðurstöðu nefndarstarfsins eða halda sig við þá hugmyndafræði að í framtíðinni verði heimildirnar tímabundnar í stað þess að vera til langs tíma.