139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

stjórnlagaþing.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Sú var tíðin að Framsóknarflokkurinn hafði það sem sitt aðalmál í febrúar 2009 að koma á stjórnlagaþingi. Nú finnst mér hv. þingmenn sumir hverjir, ekki síst sú sem beinir fyrirspurn til mín, vera á harðahlaupum undan stjórnlagaþingi. Við vitum auðvitað hver niðurstaðan var, að stjórnlagaþing var dæmt ógilt af Hæstarétti. Hv. þingmaður veit það líka eins vel og ég að skipuð var nefnd með aðild allra flokka eins fljótt og hægt var sem kom fúslega að því verki að skoða hvað þá tæki við. Sú nefnd er enn að störfum og vonandi skilar hún af sér sem allra fyrst. Það eru einkum þrjár leiðir uppi á borðinu sem nefndin er að skoða og ætla ég ekki að tjá mig sérstaklega um þær vegna þess að málið er í höndum nefndarinnar. Ég bíð eftir að fá niðurstöðu hennar um hvað hún leggur til áður en ég fer að tjá mig um fýsilegustu leiðina, hvað taki við nú þegar ógilding Hæstaréttar liggur fyrir.

Hv. þingmaður spyr um ýmis framkvæmdaratriði, hvað verði um fólkið sem vann við framkvæmdina, hvað verði um húsnæðið, hver sé áfallinn kostnaður, o.s.frv. Hv. þingmaður veit eins vel og ég að öll framkvæmdin í málinu eftir að lögin voru samþykkt hefur verið, a.m.k. hvað þessi atriði varðar, í höndum sérstakrar nefndar fimm alþingismanna sem séð hefur um það allt saman. Ég geri ráð fyrir, án þess að ég viti það beint, að sú nefnd muni halda að sér höndum til að meta málið í ljósi þess hver niðurstaða nefndarinnar verður sem fjallar um það, sem verður vonandi sem allra fyrst.