139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

stjórnlagaþing.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara frábiðja mér það sem fram kemur í máli hv. þingmanns, að ég sé að koma sökinni yfir á aðra. Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér í hvaða veru Alþingi breytti frumvarpinu um stjórnlagaþing eftir að það var lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Þá var ýmsu breytt sem sneri að því að framkvæmdin skyldi vera meira í höndum Alþingis en lagt var upp með. Ég gerði ekki nokkrar athugasemdir við það. Fyrst Alþingi ákvað það ber auðvitað að fara eftir því, að fara að lögum. Til dæmis átti forsætisráðherra að koma miklu meira að framkvæmdinni en var ráðgert í upphafi og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi staðið að því að breyta því og er það vel. Þess vegna eru framkvæmdaratriði, eins og t.d. varðandi húsnæði, starfsfólk o.s.frv. í höndum Alþingis. Eftir því sem ég kemst næst ætlar Alþingi að bíða með að ákveða (Forseti hringir.) hvað gert verður þar til niðurstaða liggur fyrir hjá nefndinni. Hv. þingmaður veit að Samfylkingin öll var einhuga um bindandi stjórnlagaþing eins og upphaflega var stefnt að, (Forseti hringir.) en það voru aðrir sem komu í veg fyrir það.