139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

viðbrögð stjórnvalda við díoxínmengun.

[10:56]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda spurninguna og raunar tel ég rétt að nota tækifærið og þakka henni fyrir vakt hennar í þessu máli, bæði í fjölmiðlum en ekki síður í umhverfisnefnd þar sem hún hefur tekið þetta mál og lagaumhverfi til skoðunar, eins og kom fram í máli hennar.

Um leið og þessi mál lágu fyrir í umhverfisráðuneytinu að minni vitund skrifaði ég bréf til Ríkisendurskoðunar þar sem ég óskaði eftir því að fram færi ítarleg rannsókn á stjórnsýslunni í málinu öllu allt frá þeim tíma þegar óskað var eftir undanþágunni, síðan hvernig farið var með þá undanþágu og ekki síst hvernig farið var með þær upplýsingar sem lágu fyrir í umhverfisráðuneytinu í árslok 2008, eins og fram kemur í máli fyrirspyrjanda. Ég vænti þess að rannsóknin taki ekki of langan tíma þannig að fljótlega liggi fyrir hvað fór úrskeiðis í stjórnsýslu umhverfismála hvað þetta varðar.

Varðandi það sem er í gangi að öðru leyti hefur Umhverfisstofnun tekið mjög myndarlega á málinu. Að því er varðar umhverfismælingar vegna díoxínmengunar erum við ekki bara að tala um áhrifasvæði Funa í Skutulsfirði og annarra sorpbrennslna heldur einnig aðra mengandi starfsemi sem sannarlega losar díoxín. Gerðar verða mælingar á jarðvegssýni í Hvalfirði í nágrenni Norðuráls og járnblendisins, nágrenni Alcoa í Reyðarfirði, nágrenni álvers Rio Tinto í Straumsvík. Síðan hyggst Umhverfisstofnun skoða ákvæði um mælingar á díoxíni hjá stóriðju og koma á reglubundnum mælingum og jafnframt að skoða jarðvegssýni af þekktu svæði þar sem áramótabrennur eru haldnar árlega en þær eru mikill losunarvaldur díoxíns.

Umhverfisstofnun hefur nú þegar haldið einn fund á Kirkjubæjarklaustri (Forseti hringir.) og hyggst halda borgarafundi víðar með þeim sem næst búa þessum mengunaruppsprettum.