139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

neysluviðmið.

[11:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra velferðarmála fyrir að eiga orðastað við mig um neysluviðmið. Hæstv. velferðarmálaráðherra hefur nýverið lagt fram skýrslu sérfræðingahóps um neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi. Skýrslan er lögð fram til almennrar kynningar og umræðu og er hún birt á vef ráðuneytisins ásamt reiknivél þar sem einstaklingar geta mátað aðstæður sínar við neysluviðmiðin. Á vefnum er einnig hægt að senda ráðuneytinu athugasemdir og ábendingar varðandi viðmiðin til 7. mars nk. og hvet ég fólk til að gera það ef því hugnast að hafa einhver áhrif á þessi mál.

Útgjaldaleið byggir á því að raunneysla samkvæmt gögnum Hagstofunnar er skoðuð aftur í tímann og neysluviðmið reiknuð út frá þeim tölum. Þrenns konar neysluviðmið eru kynnt í skýrslu sérfræðinganna: Dæmigert viðmið, skammtímaviðmið og grunnviðmið. Dæmigert viðmið fyrir útgjöld einstaklings sem býr á höfuðborgarsvæðinu í eigin húsnæði eru rúmlega 291 þús. kr. Dæmigert viðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu í eigin húsnæði eru um 617 þús. kr. Þá er gert ráð fyrir að annað barnið sé í leikskóla en hitt í grunnskóla þar sem keyptar séu skólamáltíðir og frístundavistun.

Við útreikning skammtímaviðmiða er byggt á sömu forsendum og í dæmigerðu viðmiðunum og er gert ráð fyrir að fólk geti dregið úr neyslu og frestað ákveðnum útgjaldaliðum til skemmri tíma eða í allt að níu mánuði. Miðað við sömu forsendur og í framangreindu dæmi eru skammtímaviðmið fyrir einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu rúmlega 201 þús. en fyrir fjögurra manna fjölskyldu eru það um 447 þús. kr. Grunnviðmið, sem eru án húsnæðis- og samgöngukostnaðar, eru samkvæmt þessu rúmar 86 þús. kr. fyrir einstakling sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Grunnviðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru rúmar 286 þús. kr. Um það hafa miklar umræður spunnist og ber þar helst að nefna viðbrögð frá talsmanni neytenda, Gísla Tryggvasyni, en hann segir í frétt RÚV, með leyfi forseta:

„Þótt ríkisstjórnin hafi látið útbúa 100 blaðsíðna skýrslu um neysluviðmið hefur hún ekki uppfyllt stjórnarskrárbundna skyldu sína um að skilgreina hvaða tekjur fólkið þurfi til að hafa í sig og á.“

Ráðherra hefur látið þau orð falla að ekki hafi verið ákveðið hvort og þá hvenær bætur í almannatryggingakerfinu kunni að hækka til samræmis við viðmiðin.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, bendir jafnframt á að 76. gr. stjórnarskrárinnar leggur stjórnvöldum þær skyldur á herðar að skilgreina þörf fólks til framfærslu. Greinin hljóðar svo:

„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Í svipaðan streng tekur Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, samkvæmt frétt á visir.is. Hann segir að nýting neysluviðmiðs segi ekkert til um hvað þurfi heldur hver raunin sé. Hagsmunasamtök heimilanna segja í ályktun að út frá efni skýrslu velferðarráðuneytisins sé ekki hægt að segja til um hvort og þá hversu margir séu með ráðstöfunartekjur undir framfærslukostnaði og hvað þá undir lágmarksframfærslukostnaði. Margt bendi þó til þess að mjög margar fjölskyldur safni skuldum um hver mánaðamót eða lifi við skort brýnna nauðsynja. Sérstaklega eigi þetta við um barnafjölskyldur auk heimila sem þurfi að treysta á bætur og/eða framfærslu þess opinbera auk fjölda fólks í láglaunastörfum sem fastur er í fátæktargildru. Stjórnvöldum beri skylda til að komast að því hver raunframfærslukostnaður heimilanna sé svo unnt verði að lögfesta raunframfærslu- og lágmarksframfærsluviðmið unnin út frá þeim. Á meðan sú vinna standi yfir sé nauðsynlegt að hið opinbera gefi nú þegar út lágmarksframfærsluviðmið til bráðabirgða sem taka mið af nýkynntum neysluviðmiðum.

Hafa skal í huga 25. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„1. Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.

2. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, hvort sem þau eru fædd innan eða utan hjónabands, skulu njóta sömu félagslegu verndar.“

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir að samkvæmt frétt RÚV þurfi bætur augljóslega að hækka. Mig langar því að fá svör hjá hæstv. velferðarráðherra um hvort ráðuneytið hafi reiknað út lágmarksframfærsluviðmið. Ef svo er ekki væri gott að vita hvenær til standi að gera það. Þá finnst mér mikilvægt að fá útskýringu á því hvernig ráðuneytið hyggst vinna úr skýrslum sínum um neysluviðmið. Það er nauðsynlegt að eitthvað og meira verði gert við þessar tölur en bara að birta þær. Þá væri gagnlegt fyrir þá fjölmörgu bótaþega sem lifa undir fátæktarmörkum að fá upplýsingar um hvort og hvenær nauðsynlegar bætur hækki í takt við neysluviðmið.