139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

neysluviðmið.

[11:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi skýrsla um neysluviðmiðin sem hefur verið lögð fram er mikilvæg og varpar ljósi á marga hluti sem kannski voru okkur ekki alveg ljósir, og ber í sjálfu sér að fagna því. Tilgangurinn virðist vera sá að varpa ljósi á þessa hluti, sem m.a. geta komið að gagni við ýmis úrræði sem lúta að stöðu heimilanna. Síðan hefur hæstv. velferðarráðherra líka sagt að þetta sé tilraun til að setja þetta mál á dagskrá og hafa umræðu um það. Stóra spurningin, sem ég held að við þurfum að velta fyrir okkur, er þessi: Hver er tilgangurinn og hvað svo?

Það sem þessi skýrsla leiðir í ljós er að heilmikið verk er fyrir höndum að ráðast annars vegar að því mikla atvinnuleysi, sem er orðið viðvarandi hér á landi, og hins vegar að bæta lífskjörin. Það er þar sem við eigum við ramman reip að draga.

Ég fagna því sem kom fram í grein eftir hæstv. velferðarráðherra í Fréttablaðinu á dögunum þar sem hann vekur athygli á því að hvergi nokkurs staðar hafi þessi neysluviðmið verið bundin í lög eða beintengd launaákvörðun, og ég held að þetta sé mjög mikilvægt. Við skulum ekki ganga þannig til verka að ímynda okkur að það sem hér er verið að leggja fram geti orðið grunnur að einhverjum lagasetningum, t.d. um lágmarkslaun, eða grunnur að niðurstöðu í kjarasamningum.

Auðvitað erum við öll þeirrar skoðunar að bæta þurfi lægstu launin. Við vitum hins vegar að það er ekki alveg svona einfalt. Með því t.d. að snarhækka lægstu laun er alveg ljóst að störfum hér á landi mundi fækka og það mundi líka fara upp launastigann eins og við þekkjum allt of mörg dæmi um.

Stóra verkefnið fram undan er að efla atvinnustarfsemina. Þar hefur nánast ekkert verið að gerast. Þar er fullkomin óvissa. Það er pólitísk óvissa sem umlykur atvinnustarfsemina. Menn þora ekki að aðhafast vegna þessarar pólitísku óvissu, t.d. í sjávarútvegsmálum. Erlendir fjárfestar þora ekki að koma hingað til lands nema undir einhverju sérstöku pólitísku óþægindaálagi. Þannig að (Forseti hringir.) verkefnið fram undan er að snúa þessu við. Ég tel að sú skýrsla sem hér liggur fyrir eigi að vera hvatning til okkar um að hverfa af braut þeirrar stöðnunar í atvinnumálum sem ríkisstjórnin hefur fylgt.