139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

neysluviðmið.

[11:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér nýútkomna skýrslu um neysluviðmið. Í nóvember síðastliðnum fékk ég skriflegt svar frá hæstv. velferðarráðherra við fyrirspurn minni um opinber framfærsluviðmið. Til samanburðar óskaði ég eftir upplýsingum um t.d. samningsbundin lágmarkslaun og elli- og örorkubætur o.fl. Þar kom fram að ekki eru til opinber framfærsluviðmið á Íslandi og því ekki gerlegt að bera þau saman við önnur laun eða bætur. Einnig kom fram að stefnt er að því að neysluviðmið og framfærsluviðmið tækju gildi á fyrri hluta þessa árs. Þrenns konar neysluviðmið eru kynnt í skýrslunni, dæmigert neysluviðmið byggt á raungjöldum, skammtímaneysluviðmið, þar sem gert er ráð fyrir að fólk dragi úr neyslu, og grunnviðmið sem gefa eiga vísbendingu um hver geta verið lágmarksútgjöld heimila.

Miklar væntingar hafa verið til þess að með því að komast að því hver er raunframfærslukostnaður heimila sé hægt að lögfesta lágmarksframfærsluviðmið til að vinna með hjá ríki og sveitarfélögum og í framhaldinu nýta við ákvarðanatöku um bætur á laun sem tryggi sómasamlega framfærslu. Stéttarfélög hafa líka horft til þess að nýta sér slíkar upplýsingar í kjarasamningsgerð og beðið hefur verið eftir uppfærðum neysluviðmiðum vegna úrvinnslu mála hjá fólki í greiðsluaðlögun.

Skýrslan endurspeglar fyrst og fremst raunútgjöld fólks síðastliðin ár en segir ekki til um hvað einstaklingur þarf til framfærslu. Margt bendir til þess að barnafjölskyldur, bótaþegar og láglaunafólk safni skuldum og festist í fátæktargildru. Ég bind vonir við að velferðarráðuneytið kynni innan tíðar neyslu- og framfærsluviðmið sem nýtt verði við endurskoðun á almannatryggingakerfinu og við gerð (Forseti hringir.) kjarasamninga í landinu.